Verklagsreglur

Starfsemi Íþróttafélagsins Fylkis byggir á lögum félagsins þar sem meginhlutverk þess er að vinna að eflingu íþróttastarfs í Reykjavík, glæða áhuga almennings fyri gildi íþrótta og virkja sem flesta til þátttöku í íþróttum og almennu félagsstarfi.

Það er stefna Íþróttafélagsins Fylkis að samvinna og samheldni ríki meðal félagsmanna og stjórnenda deilda auk þess sem þeir kappkosti að vinna að framgangi íþrótta og almennra félagsmála. Stjórnarmenn og þjálfarar eru hvattir til að hafa frumkvæði og stuðla að virkri og árangursríkri samvinnu. Hér er um margþætta samvinnu að ræða sem nær ekki aðeins til þeirra sem annast stjórnsýslu hjá félaginu, heldur einnig til iðkenda og starfsmanna. Þá nær samvinnan einnig út fyrir raðir Íþróttafélagsins Fylkis, eins og til foreldra, Íþróttabandalags Reykjavíkur, annarra íþróttafélaga, skóla, Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Stefnt er að því að deildir félagsins eigi með sér samstarf auk þess sem stjórnendur deilda eru hvattir til aukinnar samvinnu við stjórnendur grunnskóla og börn og unglinga. Þannig má skapa tækifæri til íþróttaiðkunar á breiðum grunni. Fjölhæf kunnátta og leikni barna í mörgum íþróttagreinum og félagsmálum á unga aldri skilar sér jafnt í öflugum keppnis- og afreksmönnum framtíðar sem góðum stjórnendum. Það er stefna félagsins að þróa áfram hugmyndir að íþróttaskóla fyrir börn frá þriggja ára aldri. Sjá nánari umfjöllum um íþróttaskóla í íþróttanámskrá.

Hér á eftir verður farið yfir helstu stefnur og markmið Íþróttafélagsins Fylkis og sett fram leiðbeinandi viðmið í samningum, tillögur að samningum við starfsmenn, styrktaraðila og fleira.

 

Óveðursáætlun

 

Mikilvægt er að foreldrar/forráðamenn fylgist sjálfir með fréttum af veðri, veðurspám og öðrum upplýsingum sem gætu haft áhrif á frístundastarf barnanna og taki ákvörðun í samræmi við aðstæður hverju sinni. Aðstæður geta þróast með ófyrirséðum hætti og verið mismunandi eftir svæðum.

Foreldrar leggja ávallt sjálfir mat á það hvort fylgja þurfi barni á æfingu, óháð því hvort tilkynning hafi borist frá yfirvöldum. Meti foreldrar aðstæður svo að ekki sé óhætt að börn þeirra sæki æfingar/keppni skulu þeir tilkynna viðkomandi þjálfara um það. Sama gildir ef börn eða foreldrar lenda í vandræðum á leið sinni á æfinga- eða keppnisstað og verða frá að hverfa.

Mikilvægt er að fólk fari ekki af stað ef það treystir sér ekki eða er vanbúið til farar, t.d. vegna vanbúinnar bifreiðar til vetraraksturs.


Íþróttafélagið Fylkir kappkostar að koma tilkynningum um röskun á frístundastarfi tímanlega á framfæri í samvinnu við skóla og frístundaheimili hverfisins.
-Ef veðurstofa Íslands gefur út stormviðvörun fyrir Höfuðborgarsvæðið þá falla allar æfingar félagsins niður nema eitthvað annað hafa verið ákveðið. Einnig hættir Frístundavagninn að ganga.
-Ef færð raskast þá geta ferðir frístundavagnsins fallið niður.
-Útiæfingar falla niður ef hitastigið verður -6 gráður og kaldara (sjá töflu).
-Útiæfingar geta svo líka fallið niður vegna veðurs og vallarskilyrða.
-Félagið sendir tölvupóst á frístundaheimili ef málefnið tengist börnum í 1.-4. bekk.
-Þjálfarar senda tölvupóst og/eða láta tilkynningu inn á Facebooksíðu viðkomandi hóps falli æfinga niður.

Kælitafla2

Áríðandi er að foreldrar fylgist með tilkynningum og fari að tilmælum.
Símkerfin eru misvel undir það búin að anna miklu álagi og er foreldrum því bent á að fylgjast með tilkynningum og afla upplýsinga í fjölmiðlum, á heimasíðu Fylkis, á vef slökkviliðsins (www.shs.is) og á Facebook-síðum Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Einnig munu þjálfarar senda upplýsingar með tölvupósti og/eða skilaboðum á Facebook síðu viðkomandi hópa.
Foreldrar skulu ævinlega leita eftir staðfestum tilkynningum yfirvalda og forðast að láta stjórnast af mati barnanna á aðstæðum.
Útsendar tilkynningar SHS eiga ávallt við um höfuðborgarsvæðið í heild, en aðstæður geta verið mismunandi eftir hverfum og bæjarhlutum.
Mikilvægt að ítreka það að það eru alltaf foreldrar sem taka ákvörðun hvort senda skuli barnið á æfingu.

Villa
  • Error loading feed data