Um fimleikadeildina

Haustið 2010 urðu þáttaskil í sögu fimleikadeildar Fylkis þegar nýtt æfingahúsnæði deildarinnar var tekið í notkun. Eftir áratugabaráttu félagsins fyrir bættri aðstöðu til íþróttaiðkunar samdist loks um að í stað nýbyggingar yrði fyrrum MEST-húsið í Norðlingaholti nýtt af Reykjavíkurborg til íþrótta- og tómstundastarfs. Sumarið 2010 var hafist handa við breytingar á húsinu svo innrétta mætti sérhannaða fimleika- og karatesali á neðri hæð hússins, fullkomna búningsaðstöðu, aðstöðu þjálfara og starfsfólks og fundarherbergi. Á efri hæðinni er danssalur Fylkis en hæðin hýsir að öðru leyti frístundaheimilið Holtasel og félagsmiðstöðina Holtið, sem Íþrótta- og tómstundaráð rekur.

Það má því með sanni segja að fimleikadeildin lifi nú nýtt vor í starfsemi sinni. Í fjölda ára hafa þrengsli og aðstöðuleysi hamlað vexti deildarinnar og takmarkað möguleika þjálfara og iðkenda. Eftir flutningana í nýtt húsnæði hefur deildin sprungið út, hugsjónir og hugmyndir sem árum saman þurfti að slá á frest hafa fengið að blómstra og iðkendum hefur nú þegar fjölgað um þriðjung. Fimleikadeildin státar einnig af nokkrum af reyndustu þjálfurum landins, nokkrir þeirra hafa full dómararéttindi og einn er alþjóðlegur dómari. Lögð er áhersla á menntun og reynslu þjálfara og að þeir séu ekki undir 18 ára aldri. Haustið 2010 eru allir þjálfararnir utan einn 19 ára og eldri.

Íþróttir barna og unglinga
1. Andi stefnunnar
Sú stefna sem hér er mælt með hefur það að leiðarljósi að íþróttaiðkun skuli vera þroskandi bæði líkamlega, sálrænt og félagslega. Með því móti má skapa aðstæður fyrir mun fleiri börn og unglinga til að njóta sín innan íþróttahreyfingarinnar.
Með skipulegri og markvissri þjálfun eins og hér er lýst má skapa börnum og unglingum aðstæður til að verða afreksmenn seinna meir á lands- eða alþjóða mælikvarða þegar þeir hafa mesta líkamlega og sálræna hæfileika til þess. Að sama skapi er gert ráð fyrir að þeir sem ekki velja afreksmennsku eða keppnisíþróttir fái tækifæri til að stunda íþróttir eða líkamsrækt við sitt hæfi.
Varðandi þau aldursmörk sem gengið er út frá verður að gera ráð fyrir ákveðnu svigrúmi og sveigjanleika vegna mismunandi reglna sem gilda í hinum ýmsu íþróttagreinum og mismunar á þroskaferli milli kynja og einstaklinga.
Með neðangreindum aðferðum má tryggja mun meiri fjöldaþátttöku í íþróttum en áður hefur þekkst og skapa um leið aðstæður fyrir fleiri afreksmenn og meiri afrek en áður hefur þekkst.
2. Skilgreiningar
• Með barnaíþróttum er átt við íþróttir fyrir börn á aldrinum til og með 12 ára.
• Með unglingaíþróttum er átt við íþróttir fyrir börn á aldrinum 13-19 ára.
3. Markmið
Íþróttaþjálfun barna og unglinga hafi eftirfarandi markmið:
• 8 ára og yngri:
-Að auka hreyfiþroska
-Að fyrstu kynni af íþróttum verði jákvæð
• 9-12 ára:
-Að bæta tæknilega færni.
-Að auka þol.
-Að auka kraft.
-Að auka liðleika.
-Að vekja íþróttaáhuga fyrir lífstíð.
• 13-16 ára:
-Að auka þol.
-Að auka kraft.
-Að auka hraða.
-Að auka liðleika.
-Að viðhalda og bæta áður lærða tæknilega færni.
-Að skapa félagslega jákvæðar aðstæður og umhverfi með íþróttastarfinu
-Að kynna keppnis- og afreksíþróttamennsku og þann hugsunarhátt sem nauðsynlegur er til að árangur náist.
-Að kynna þá möguleika sem bjóðast þeim sem vilja iðka íþróttir sem líkamsrækt og vegna félagsskaparins.
• 17-19 ára:
-Að allir þjálfunarþættir séu teknir fyrir.
-Að auka þjálfunarálagið verulega.
-Að innleiða afrekshugsunarhátt hjá þeim sem stefna að þátttöku í keppnis- og afreksíþróttum.
-Að skapa möguleika fyrir þá sem vilja iðka íþróttir sem líkamsrækt og vegna félagsskaparins.
4. Leiðir
Stefnt verði að eftirfarandi leiðum að settum þjálfunarmarkmiðum:
• 8 ára og yngri:
-Að æfingarnar séu fjölþættar og stuðli að bættum hreyfiþroska. Hér er átt við æfingar sem örva hinar ýmsu skynstöðvar og unnið sé með grófhreyfingar og fínhreyfingar.
-Að þjálfunin fari fram í leikformi.
-Að æfingarnar séu skemmtilegar.
-Að öll börn fái jöfn tækifæri til þátttöku.
-Að fjölgreinafélög sjái til þess að öll börn á þessum aldri hafi tækifæri til að stunda íþróttir með þessum hætti í ódeildaskiptum íþróttaskólum eða námskeiðum á vegum félaganna.
-Að sérgreinafélög sjái til þess að öll börn á þessum aldri hafi tækifæri til að stunda íþróttir með þessum hætti með því að taka upp samvinnu við önnur félög eða vinni samkvæmt þessum markmiðum og leiðum sama hvaða íþróttagrein er sérgrein félagsins. Þetta mætti gera með því að hafa sérgreinina sem kjarnagrein en verja 40-50% þjálfunartímans í fjölþætta hreyfiþjálfun af ýmsum toga.
• 9-12 ára
-Að æfingarnar séu fjölþættar.
-Að aðaláherslan í þjálfuninni sé á þjálfun tæknilegrar færni.
-Að börnin séu hvött til að kynna sér og reyna sem flestar íþróttagreinar.
-Að undirstöðutækni sem flestra íþróttagreina sé lærð.
-Að æfingarnar feli í sér þol, kraft og liðleikaæfingar.
-Að æfingarnar séu skemmtilegar.
-Að háttvísi og íþróttamannsleg framkoma sé kennd.
-Að öll börn fái tækifæri til æfinga og keppni miðað við þroska og getu.
-Að við níu ára aldurinn taki deildirnar í fjölgreinafélögum við börnunum úr íþróttaskólanum og sjái til þess að unnið sé samkvæmt settum markmiðum og leiðum. Deildirnar hafi samvinnu sín á milli um að gefa börnum og unglingum viðunandi tækifæri til að stunda fleiri en eina íþróttagrein og leggi sitt af mörkum til hvatningar hvað það varðar.
-Að sérgreinafélög verði áfram um samvinnu við önnur félög að ræða eða ákveðin prósenta af þjálfuninni fari í aðrar íþróttagreinar til að tryggja fjölbreytnina og kynni af mörgum íþróttum.
• 13-16 ára
-Að æfingarnar séu fjölþættar.
-Að æfingarnar byggist meira en áður á þoli, krafti og hraðaæfingum ásamt liðleikaþjálfun.
-Að þeirri tæknilegu færni sé viðhaldið sem áður var lærð.
-Að í lok þessa aldursskeiðs hefjist sérhæfing í ákveðnum íþróttagreinum eða greinaflokkum.
-Að sérstök áhersla sé lögð á að skapa unglingum félagslega góðar aðstæður innan íþróttaliðsins eða félagsins. Til þess skulu öll tækifæri sem bjóðast til hópþátttöku, hópferða og félagslegra athafna innan vallar sem utan nýtt til hins ítrasta.
-Að fræðsla um vöxt og þroska fari fram.
-Að fræðsla um heilbrigðan lífsstíl fari fram.
-Að allir unglingar fái tækifæri til æfinga og keppni miðað við þroska og getu.
-Að öll félög sjái til þess að skapa sem jöfnust tækifæri til að stunda keppnisíþróttir annars vegar og íþróttir/líkamsrækt hins vegar.


. Fimleikadeild Fylkis
Nokkur góð ráð til þjálfara


• Reglur eiga að vera fáar, stuttar og ákveðnar. Reyna að láta reglur tilgreina æskilega framkomu fremur en óæskilega.
• Mikilvægt er að fá þögn og athygli allra í hópnum þegar fyrirmælin eru gefin. Þjálfari getur komið sér upp ákveðnu kerfi/merki t.d. flaut, klapp eða ákveðið orð.
• Gefa skal skýr fyrimæli og varast að útskýra of marga þætti í einu. Þú ert stjórnandinn, ekki leyfa nemendum að velja t.d. hvort viljið þið fara á stökk eða tvíslá.
• Nota skal rétt nöfn nemenda, gælunöfn geta valdið leiðindum.
• Verum stundvís - kurteis og munum að við erum fyrirmynd.
• Vertu skipulagður og alltaf búin að ákveða fyrirfram hvað gera á í tímanum. Settu þér skýr markmið og gerðu allt sem í þínu valdi stendur til að ná þeim.
• Sinntu öllum nemendum jafnt og vertu dugleg/ur að ganga á milli og leiðbeina. Þjáfari sem situr við kennslu er merki um latan og áhugalausan þjálfara.
• Gefðu gaum að raddbeitingu. Það er ekki allfaf sá sem galar hæðst sem nær mestu athyglinni. Talaðu samt skýrt og greinilega, ekki vera feimin/nn eð rög/ragur við nemendur eða aðra í fimleikasalnum.
• Gera sér grein fyrir því hvenær nemendur verða þreyttir og breyta þá um áherslur/æfingar. Vertu aldrei of lengi með sömu æfinguna, fjölbreytni er nauðsynleg..
• Hafðu alltaf næg verkefni til reiðu. Til dæmis ef röð myndast finndu þá eitthvað til að fylla upp í með.
• Reyndu að finna ástæðu slæmrar hegðunar.
• Reyndu að sjá árekstra /rifrildi fyrir og fyrirbyggja þá/þau.
• Vert ákveðin/nn og sjálfum þér samkvæm/ur, ef refsa þarf. Mikilvægt er að sættast alltaf við nemanda og skilja alltaf í góðu. Seinna í tímanum er gott að gefa sama aðila klapp í bakið.
• Ef þér verða á mistök, viðurkenndu þau.
• Dæmdu aldrei út frá óljósum upplýsingum, t.d. ef einhver klagar, kannaðu þá málið betur. EKKI gruna neinn, ÞÚ verður að vera viss.
• Vertu tilbúin að hjálpa nemendum og styðja þá
• Taktu gríni og gerðu að gamni þínu, líka á eigin kostnað.
• Muna, ekki tala niður til nemenda, þeim ber að sýna sömu virðingu og öðru fólki.
• Vert jákvæð/ur mundu eftir hrósi fyrir góða hegðun og vel unnar æfingar.
• Þegar fengist er við óæskilega hegðun er það hegðunin sem er óæskileg EKKI BARNIÐ
• Taktu á málefnum sem barnið á möguleika að breyta. T.d. misþroska, ofvirkni eða seinþroska börn ráða ekki alltaf við hegðun (aðgerðir sínar). Athugaðu að hreyfiþroski þessarar barna getur verið lítill. Þau gera e.t.v eins vel og þau geta.
• Taktu ekki á nemanda ef þér sýnist tilfinningar hans ætli að bera hann ofurliði. Taktu ekki á nemanda ef tilfinningar þínar eru ekki í jafnvæi.
• Ekki refsa nemanda fyrir framan aðra nemendur, taktu hann afsíðis.
• Ef barn meiðir sig hlustaðu þá á það . Athygli getur verið það sem barnið kallar eftir.

 

Starfsemi

Frekari upplýsingar eru veittar í  This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Villa
  • Error loading feed data